1920

Sögu Nóa Síríus má rekja allt aftur til ársins 1920. Þá var stofnað fyrirtæki sem hét Brjóstsykursgerðin Nói af þeim Gísla Guðmundssyni, Lofti Guðmundssyni, Eiríki Bech, Halli Þorleifssyni og Þorgils Ingvarssyni. Þorgils varð fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Fjórum árum síðar gekk H. Benediktsson & Co í félag við stofnendurna og árið 1927 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag.
Fyrst í stað var einungis framleiddur brjóstsykur og karamellur og fór starfsemin fram í kjallaraherbergi á Óðinsgötu 17. Síðan var hún flutt á Túngötu 2, næst á Túngötu 5 og því næst á Smiðjustíg 11.

Fyrsti starfsmaður Nóa var Eiríkur Bech, en hann hafði lært sælgætisgerð í Danmörku. Eiríkur varð síðan framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 1924 og gegndi því starfi allt til 1954.

1921
1924

Sætt samkomulag

Árið 1924 eignaðist H. Benediktsson & Co. Meirihluta í Brjóstsykursgerðinni Nóa. Aðaleigandi var Hallgrímur Benediktsson, stórkaupmaður, en fyrirtækið var eitt öflugasta verslunarfélag þess tíma.

1930

Fjölhæfni í fyrirrúmi

Við höfum ekki alltaf einskorðað okkur við sælgæti. Árið 1930 keypti Nói sápuverksmiðjuna Hrein og í kjölfarið festi íslensk sápa sér sess á innlendum markaði. Hreinn framleiddi einnig kerti, skóáburð og sjálfvirka þvottaduftið „Hreinshvítt“ svo fátt eitt sé nefnt.

1933

Framfaraár — Síríus og Barónsstígurinn

Á þessum tíma voru innflutningshöft á sælgæti auk þess sem háir tollar voru lagðir á sykur og kakó og hráefni skammtað.

 

Árið 1933 keyptum við dönsku súkkulaðiverksmiðjuna Síríus (stofnuð 1895) af hinum þekkta sælgætis- framleiðanda Galle & Jessen. Kaupin á Síríus mörkuðu sannkölluð þáttaskil í okkar sögu, en í kjölfarið hófum við framleiðslu á súkkulaði.

 

1933

Við létum ekki þar við sitja, en sama ár og gengið var frá kaupum á Síríus komumst við loks í okkar eigið húsnæði á Barónsstíg. Fyrirtækin Nói, Hreinn og Síríus voru þá rekin sem sjálfstæðar einingar undir sama þaki.

1935-1945

Konfektframleiðsla hefst

Alla tíð síðan framleiðsla hófst hefur konfektið okkar verið fastur liður á íslenskum tyllidögum, sérstaklega í jólahaldi landsmanna. Á þessum árum, þar til Nói og Síríus sameinuðust formlega, seldi Síríus hráefni til Nóa, þ.e. súkkulaði. Þess vegna tölum við enn um Nóa konfekt en ekki Nóa Síríus konfekt.

Á svipuðum tíma hófum við framleiðslu á páskaeggjunum okkar, sem allir þekkja.

1945-1955

Tópasframleiðsla hefst

Um miðja síðustu öld hófum við framleiðslu á lakkrístöflum. Frægust þeirra er Tópas, sem hefur verið sívinsælt alla tíð síðan.

1954

Brautryðjandi

Árið 1954 tók Ingileif Bryndís Hallgrímsdóttir við sem stjórnarformaður, aðeins 35 ára gömul. Ingileif gegndi formennsku til ársins 2004, þegar hún lét af störfum 85 ára að aldri.

Í dag er aðeins um fjórðungur stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum konur. Á þessum tíma var þetta hlutfall mun lægra, og því afar fátítt að konur gegndu stjórnarformennsku.

1955

Sérfræðiþekking í þágu gæða

Árið 1955 tók Hallgrímur Björnsson (til hægri á myndinni) við sem forstjóri. Hallgrímur var menntaður efnaverkfræðingur. Sérfræðiþekking hans leiddi til mikilla umbóta á sviði gæða í allri okkar framleiðslu en hann lagði áherslu á að góð vara yrði ekki framleidd úr lélegu hráefni. Sú regla gildir enn og þess vegna eru hráefnin okkar alltaf valin af kostgæfni.

1960-1970

Fjölbreytt vöruúrval

Vöruvalið stækkar og nýjar tegundir líta dagsins ljós, m.a. Malta súkkulaðikex. Fyrirtækið vex og dafnar og undir lok 7. áratugarins, þegar fyrirtækið undirbýr hálfrar aldar afmæli, lætur nærri að Nói og Síríus framleiði fjórðung þess sælgætis sem framleiddur er í landinu.

1970

Samkeppnin harðnar

Árið 1970 gekk Ísland í EFTA. Fram að því hafði innflutningur á sælgæti verið óheimill og sælgæti á Íslandi því nær einungis frá innlendum framleiðendum. Eftir að innflutningsbannið var lagt af var 100% tollur lagður á innflutt sælgæti. Tollurinn var lækkaður um 10% á ári næstu 10 árin.

1977

Vaxtarverkir

Árið 1977 gat húsnæðið á Barónsstíg ekki lengur hýst starfsemina og var hluti hennar þá fluttur á Suðurlandsbraut 4. Sama ár voru Nói og Síríus loks sameinuð undir heitinu Nói Síríus hf.

1981

Þörf þróun

Innflutningur á erlendu sælgæti fór stigvaxandi upp frá árinu 1970 og árið 1981 voru innflutningstollar afnumdir. Íslensk sælgætisfyrirtæki þurftu skyndilega að standast samkeppni við stóra, erlenda framleiðendur. Þrátt fyrir þetta dró ekki úr framleiðslu íslensku fyrirtækjanna. Breyttar markaðsaðstæður gera kröfur um breytta starfsemi. Árin frá 1981 hafa einkennst af stöðugri vöruþróun, einkum vegna samkeppni við erlendar vörur. Í kjölfarið urðu mörg af vinsælustu vörumerkjum þjóðarinnar til, til dæmis Nóa Kropp og Eitt Sett.

Árið 1981 tók Kristinn Björnsson við sem forstjóri Nóa Síríus.

1990

Nýr forstjóri

Finnur Geirsson tók við sem forstjóri árið 1990 og er hann því þriðji forstjóri fyrirtækisins sem hefur gengt því starfi í meira en aldarfjórðung. Hans fyrsta verkefni var að finna starfseminni nýtt húsnæði.

1993

Heim á Hestháls

Árið 1993 fluttum við í núverandi húsnæði okkar á Hesthálsi, sem hefur orðið þekkt kennileiti borgarinnar sem sést frá Vesturlandsvegi. Sama ár varð Nói Síríus umboðsaðili fyrir Kellogg’s vörur á Íslandi.

1995

Umskiptaár —  Opal slæst í hópinn

Árið 1995 var tekin stefnumótandi ákvörðun um að Nói Síríus skyldi eingöngu vera matvælafyrirtæki. Starfsemi sem tilheyrði Hreini var seld og þar með hættum við að framleiða sápur, hreinlætisvörur og kerti.

Í árslok 1995 festum við kaup á Opal og bættum þekktum vörum á borð við Opal, Trítla og Hálsmola við hina ört vaxandi Nóa Síríus fjölskyldu.

1996

Frumkvöðlastarf

Á Matvæladegi árið 1996 var Nói Siríus tilnefnt til verðlauna vegna nýrrar útgáfu af hinum sígildu Tópas- töflum, Tópas með Xylitol tannverndarefni. Tilgangurinn var að koma með tannvænar töflur sem væru eins og „gamli, góði, græni Tópasinn“. Þetta er fyrsta sælgætið sem framleitt er á Íslandi sem inniheldur Xylitol.

2000

Út fyrir landsteinana

Í kringum aldamótin fluttum við nokkrar framleiðsluvélar til Lettlands og settum upp framleiðslufyrirtæki. Skömmu síðar keyptum við hlut í Staburadze, rótgrónu kexfram- leiðslufyrirtæki þar í landi. Stuttu síðar keypti það fyrirtæki meirihluta í Laima, stærsta sælgætisfyrirtæki Lettlands. Hlutur Nóa Síríus var seldur árið 2004.

2005

Áslaug tekur við sem stjórnarformaður

Árið 2005 tók Áslaug Gunnarsdóttir við af móður sinni, Ingileifu, sem stjórnarformaður. Hjá okkur hafa konur því gegnt stjórnarformennsku óslitið frá árinu 1954.

2006

Sælgæti í sókn

Árið 2006 keyptum við meirihluta í Elizabeth Shaw, rótgrónu ensku súkkulaðifyrirtæki. Sá hlutur var seldur árið 2009, og síðan þá höfum við einbeitt okkur að útflutningi eigin framleiðslu.

 

Útflutningur er nú stór og vaxandi liður í starfseminni en við flytjum sælgæti meðal annars til Bandaríkjanna, Kanada, Danmerkur og Færeyja.

 

Vegna aukinnar starfsemi urðum við að stækka húsnæðið okkar enn frekar og árið 2006 bættum við 1.800 fermetrum við starfsstöðvar okkar á Hesthálsi. Þær telja nú ríflega 8.000 fermetra.

2013

Cocoa Horizons vottun

Árið 2013 fengum við Cocoa Horizons vottun. Það þýðir að allt kakóhráefni sem við notum til súkkulaðigerðar er framleitt samkvæmt viðurkenndu ferli sem gerir kakóbændum meðal annars kleift að auka framleiðni á ábyrgan og sjálfbæran hátt.

Hér getur þú lesið meira um Cocoa horizons.

2014

Traditional Icelandic Chocolate verður til

Með auknum straumi ferðamanna hingað til lands var tekin ákvörðun um að það þyrfti að kynna íslenskt súkkulaði og sælgætishefðir fyrir erlendum gestum. Úr varð vörumerkið Traditional Icelandic Chocolate. Viðtökurnar hafa verið frábærar og seljum við nú á annan tug vörunúmera á ferðamannastöðum um land allt og hafa aðrir framleiðendur fylgt í kjölfarið.

2018

Stórtíðindi í súkkulaðiheiminum

Fram til þessa hefur verið talað um þrjár gerðir af súkkulaði: rjómasúkkulaði, dökkt súkkulaði og hvítt súkkulaði. Við urðum þess heiðurs aðnjótandi að vera fyrsti iðnframleiðandinn í heiminum sem fékk að kynna fjórðu tegundina af súkkulaði til leiks – hið fagurbleika rúbínsúkkulaði.

2020

Aldarafmæli Nóa Síríus

130 manns starfa nú hjá Nóa Síríus. Nói Síríus hefur nær alla sína sögu verið að miklu leyti í eigu sömu fjölskyldunnar sem eru afkomendur Hallgríms Benediktssonar. Við framleiðum mikinn fjölda sívinsælla vörutegunda sem hafa fest sér sess á innlendum og erlendum mörkuðum. Á sama tíma erum við alltaf að leita leiða til að þróast í samræmi við breyttar kröfur nýrra tíma. Á síðustu 100 árum höfum við fengið einstakt tækifæri til að vaxa með þjóðinni. Við höfum ríka ástæðu til að líta framtíðina björtum augum.