Umbætur á umbúðum og framleiðslu

Umbúðir eru nauðsynlegur þáttur í því verkefni að koma vörunum okkar í sem bestu ástandi í hendur neytenda. Við leggjum hins vegar ríka áherslu á að takmarka notkun þeirra eins og hægt er og auka hlut endurnýtanlegra hráefna. Þannig tókst okkur að minnka plastnotkun um 15% milli áranna 2018 og 2021 auk þess sem mun stærri hluti plastsins er nú endurvinnanlegur.

Áhrif úrbótaverkefna tengdum umbúðum geta borið mikinn árangur en með breyttum umbúðum á Síríus línunni sparast um 5 tonn af plasti á ári. Annað slíkt umbótarverkefni tengist páskaeggjunum okkar. Það hafa margir rekið sig á það að megnið af sælgætinu innan í Nóa páskaeggjunum er nú umbúðalaust. Þetta er hluti af þeirri vegferð okkar að minnka umbúðanotkun eins og kostur er. En við létum ekki staðar numið þar heldur fjarlægðum við einnig millispjöld úr rúmlega 18.000 páskaeggjakössum til að spara pappa.

Við höfum aukið vægi umbúða úr endurnýtanlegum efnum og vinnum markvisst að því að lágmarka umbúðasóun, t.d. með aukinni stöðlun þeirra og bættum vélakosti.

 

 

Við erum meðvituð um að sjálfbærni vegferðin er stöðugt umbótaferli og fylgjast þarf vel með nýjungum sem til boða standa. Ein þessara nýjunga er samnorrænar flokkunarleiðbeiningar sem aðstoða almenning við að flokka umbúðir í réttar sorptunnur. Þannig má tryggja að umbúðir haldist frekar innan hringrásarhagkerfisins og geti átt sér framhaldslíf. Snemma árs 2023 ákváðum við, einna fyrst íslenskra framleiðenda, að merkja allar umbúðir okkar með slíkum leiðbeiningum. Sú vinna er langt á veg komin en þó tekur tíma að klára umbúðir sem til eru á lager og koma þeim nýju í verslanir. Það er því um að gera að leita að leiðbeiningunum á bakhlið vara okkar þegar gómsætt innihaldið er uppurið. Ef spurningar vakna um hvernig skuli flokka umbúðirnar okkar hvetjum við ykkur til að hafa samband á noi@noi.is.