Síríuskannan er komin í valdar verslanir. Fólk getur eignast könnuna í kaupbæti þegar keyptir eru tveir pakkar af Síríus suðusúkkulaði á völdum sölustöðum. 

Þú getur nálgast Síríuskönnuna 2025 í eftirfarandi verslunum:

  • Hagkaup
  • Nettó
  • Fjarðarkaup
  • Skagfirðingabúð Sauðárkróki 
  • Kjörbúðin

Elsa Nielsen myndskreytir Síríuskönnuna í ár!

Síríuskannan hefur verið órjúfanlegur hluti af súkkulaðihefð Íslendinga síðan árið 2013 og hefur notið mikilla vinsælda. Í ár er kannan fallega myndskreytt af listakonunni Elsu Nielsen en það vill svo til að á þessu ári eru liðin 10 ár síðan hún hóf hið einstaka verkefni #einádag.  

Líkt og nafnið gefur til kynna teiknaði Elsa þá eina mynd á dag sem voru fjölbreyttar en snérust um að fanga daglegt líf hennar, hugleiðingar og innblástur í litlum, látlausum teikningum sem á stuttum tíma hlutu mikið lof fyrir næmni og frumleika. „Siríuskannan er líkt og #einádag verkefnið með nokkrum litlum teikningum en þessar tengjast allar súkkulaði. Ég er hrifin af einfaldleikanum og leyfi litlu teikningunum að njóta sín á könnunni“ segir Elsa og bætir við að það hafi verið gamana rifja upp þessa uppsetningu. „Það er alltaf gaman að teikna litlar myndir og borða súkkulaði í leiðinni til að fá innblástur.“

Þegar Elsa sat með dóttur sinni við borðstofuborðið 1. janúar 2015 óraði það ekki fyrir henni að verkefnið #einádag gæti orðið svona stórt. „Ég var frekar þreytt með kókdós fyrir framan mig og teiknaði eina litla mynd af dósinni. Fannst ég frekar ryðguð með trélitina og ákvað að mig langaði að teikna meira á árinu og rifja upp gamla takta síðan úr listaháskólanum.“ Eftir það ákvað hún að teikna eina mynd á dag það árið, sem hún stóð við.  „Úr varð myndræn dagbók úr mínu daglega lífi. Meðal annars teiknaði ég Nóa Siriús mola - alveg nokkra því ég er mikil súkkulaðikona. Þegar allar 365 myndir voru teiknaðar langaði mig auðvitað að gera meira úr þeim og hannaði vörulínu. Sú vörulína var til sölu í helstu hönnunarverslunum hér á Íslandi en einnig í Illums Bolighus í Danmörku og New Design í New York.“ Í kjölfarið af þessu verkefni var Elsa tilnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness sem henni þótti mikill heiður.

Elsa vinnur nú í öðru sambærilegu verkefni sem kallast #eináviku. „Í ár eru 10 ár síðan ég teiknaði eina mynd á dag í heilt ár (2015) og mig langaði að teikna aðeins aftur. Það er svo róandi og gefandi“ en í þetta skiptið vildi hún teikna stærri myndir og breyta aðeins um viðfangsefni. Elsa starfar sem hönnuður og hugmyndasmiður í dag og fannst spennandi að hanna eða setja saman myndefnið sjálf. Úr varð sú hugmynd að skeyta saman tveimur hlutum og teikna útkomuna. „Það er ótrúlegt hvað þessar myndir hafa vakið mikla lukku og svo skemmtilegt að fara í smá hugmyndavinnu fyrir hverja mynd. Það verður svo sýning með öllum frumteikningum í janúar í Gallerí Gróttu. Sama stað og #einádag sýningin var fyrir 10 árum.“ 

Hægt er að fylgjast með Elsu Nielsen hér: @elsanielsen