Uppskriftir

Karamellu páskaeggja pavlóvur

Leiðbeiningar

Pavlóvur

1. Stillið ofninn á 120ºC, undir og yfir hita.

2. Notið fullkomlega hreina hrærivéla skál, setjið eggjahvíturnar í skálina ásamt cream of tartar og notið þeytarann.

3. Blandið kornsterkjunni út í sykurinn, hrærið saman.

4. Þeytið eggjahvíturnar mjög rólega fyrst, setjið 1 msk af sykri út í eggjahvíturnar í einu á ca ½ mín fresti, aukið hraðann hægt og rólega eftir því sem þið setjið meiri sykur út í (þolinmæðisverk en þó þess virði).

5. Blandið saman vanilludropum og hvíta borðedikinu, hellið blöndunni út í þegar eggjahvíturnar hafa náð stífum toppum og hrærið saman við í ½ mín lengur.

6. Setjið kakóduftið ofan í deigið og hrærið því varlega saman við með sleikju.

7. Setjið smjörpappír á ofnplötu, notið tvær matskeiðar til að útbúa u.þ.b. 10 cm kökur, hverr kaka er u.þ.b. 2 msk af deigi. Notið bakhliðina á skeiðinni til að útbúa skál úr marengsinum. Passið að hafa smá fjarlægð á milli  því marengsinn stækkar örlítið í ofninum.

8. Bakið í 40-50 mín, slökkvið svo á ofninum en ekki opna ofninn. Látið kökurnar kólna með ofninum. Takið þær út þegar ofninn hefur kólnað fullkomlega.

Rjómi

1. Hitið 100 ml rjóma að suðu. Setjið karamellusúkkulaðidropana í skál og hellið heita rjómanum yfir. Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað og blandan samlagast. Setjið skálina í ísskáp eða frysti og kælið þar til blandan er orðin köld en ekki stíf.

2. Þeytið 400 ml rjóma þar til hann er orðinn létt þeyttur, hellið þá karamellusúkkulaðirjómanum út í og þeytið áfram þar til hann er orðinn stífur.

3. Hitið lítinn og mjög beittan hníf undir heitu vatni. Þurrkið vatnið af hnífnum og skerið toppinn af páskaeggnunum. Þið munið þurfa endurhita hnífinn oft í þessu ferli. Sprautið rjóma ofan í eggin og ofan á hverja pavlóvu og setjið rjómafyllta eggið ofan á. Skreytið með karamellukurli.

Innihald

Pavlóvur

  • 6 eggjahvítur
  • 3,5 dl sykur
  • 2 tsk kornsterkja (maizenamjöl)
  • 1/8 tsk cream of tartar
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 tsk hvítt borðedik
  • 2 msk Síríus kakóduft

 

Karamellusúkkulaði rjómi

  • 500 ml rjómi (skipt í 400 ml og 100 ml)
  • 150 Síríus karamellusúkkulaðidropar
  • 50 g Síríus karamellukurl
  • 10 Dore páskaegg nr. 1