Velkomin á uppskriftasíðu Nóa Síríus
Pipp Marengsterta
Unnin í samstarfi við Völlu - Valgerði G. Gröndal
Leiðbeiningar
Marengs
Hitið ofninn í 130° blástur. Setjið eggjahvíturnar í skál og byrjið að þeyta, vigtið sykurinn og setjið hann saman út í eggjahvíturnar í smá skömmtum. Skafið niður í skálinni á milli ef þarf.
Þeytið þar til sykurinn er uppleystur, bætið þá cream of tartar og maizena mjöli saman við og hrærið í nokkrar sekúndur í viðbót.
Setjið Rice Krispies saman við með sleikju.
Teiknið 3 hringi á bökunarpappír, ca 18-20cm í þvermál. Ég nota oft disk eða botn úr lausbotna formi. Skiptið deiginu jafnt á milli og mótið botna. Bakið í 90 mín og látið kólna í ofninum, helst yfir nótt.
Pipp fylling
Setjið 350ml af nýmjólk í skál og setjið búðingsduftið saman við. Þeytið með handþeytara eða písk þar til búðingurinn er samlagaður. Setjið skálina í kæli og kælið í 15 mín.
Hellið rjóma í skál og þeytið þar til hann er orðinn eins stífur og hægt er án þess að hann verði að smjöri. Takið kalda búðinginn og blandið honum saman við rjómann með sleikju.
Pipp krem
Setjið rjóma í pott og brjótið súkkulaðið út í. Bræðið saman á vægum hita, það gæti þurft að hræra aðeins rösklega með písk í lokin til þess að fyllingin sé alveg bráðin við súkkulaðið. Látið kólna að mestu við stofuhita.
Samsetning
Setjið 1 botn á kökudisk. Dreifið kremi yfir botninn, þar næst 1/3 af rjómafyllingunni, stráið þá Nóa kroppi eftir smekk yfir rjómann. Setjið annan botn yfir og endurtakið.
Setjið síðasta botninn ofan á, rjómafyllingu þar næst, Pipp krem þar yfir og skreytið með Nóa kroppi og blómum. Það er gott að láta tertuna bíða aðeins áður en hún er borin fram til þess að hún verði búin að taka sig og mýkjast upp.
Dásamleg terta fyrir alla unnendur góðra marengsterta og piparmyntusúkkulaðis!
Innihald
Marengsbotnar
2dl eggjahvítur eða 6 eggjahvítur af stórum eggjum, við stofuhita
360g sykur
½ tsk cream of tartar
1 tsk maizenamjöl
60g Kelloggs Rice Krispies
Pipp fylling
1 pakki Royal Pipp búðingur
350ml nýmjólk
300ml stífþeyttur rjómi
Pipp krem
100g Síríus pralín súkkulaði með pippfyllingu
100g Síríus pralín súkkulaði 56% dökkt með pippfyllingu
80ml rjómi
Nóa kropp
Blóm til skrauts